Hugleiðingar ritara stjórnar UMFK

Hugleiðingar ritara stjórnar UMFKNú þegar líður að aðalfundi UMFK 2015 er ljóst að það vantar nýtt fólk til starfa í stjórn félagsins. Fjórir aðilar gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu en eftir sitja 2 stjórnarmenn og 2 varamenn.

 

Til að félagið geti áfram starfað líkt og verið hefur þurfa nýjir aðilar að bjóða sig fram til starfa fyrir félagið. Ef ekki mun núverandi stjórn sjá til þess að óbreytt starf haldist út skólaárið en að því loknu mun félagið vera lagt niður.

 

Hvað vilja foreldrar og forráðamenn barna á Kjalarnesi? Vilja þau að börn þeirra geti áfram notið þeirrar þjónustu sem UMFK hefur veitt? Eða skiptir þetta starf fólk engu máli?

 

Af hverju að taka þátt í sjálfboðavinnu sem eflir og bætir samfélagið? – Jú, markmið félagsins er að bjóða upp á íþróttir fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri. Félagið hefur boðið upp á fjölbreytta hreyfingu þrátt fyrir smæð sína. Félagið hefur fengið styrk sem gerir því kleift að hafa starfsmann á launum sem heldur utan um æfingar og þjálfun. En auðvitað er þó nokkuð af verkefnum sem fellur til og stjórnarmeðlimir taka að sér, og eins mæðir mis mikið á fólki eftir því hvaða stöðu það gegnir. En á heildina litið er þetta skemmtilegt starf með góðu fólki og það gefur manni heilmikið. Það gildir nefnilega í þessu eins og öðru að ef fólk gefur sig í hlutina og vinnur saman, þá gengur vel.

 

„Ég hef ekki tíma til að taka þátt í svona starfi!“ – Hver kannast ekki við að hafa sagt þetta? En málið er að enginn hefur tíma til að gefa af sér í nútíma samfélagi, enda er þetta ekki spurning um það. Þetta snýst um það að ákveða að gefa sér tíma í hlutina. Ég þekki þetta mjög vel sjálf því á tímabili í mínu lífi hafði ég ekki tíma til að gera neitt, var alltaf svo upptekin. Það var ekki fyrr en ég náði þeim þroska sem þurfti til að átta mig á því að ég sjálf þurfti að gefa mér tímann, það gat það enginn annar. Þessi uppgötvun breytti bara ansi miklu í mínu lífi.

 

En þá má eflaust spyrja: ef þetta er svona skemmtilegt og gefandi, af hverju situr þú ekki áfram í stjórn? – Það er með blendnum tilfinningum á ég læt af setu í stjórn UMFK en ég er búin að sitja þrjú ár í stjórn. Fyrsta árið var ég varamaður en seinni tvö árin ritari stjórnar. Ég hef lært helling og átt samvistir við gott fólk. Af hverju að hætta? Af því mig langar að nota krafta mína til annarra starfa og eins held ég að það sé engum hollt að sitja of lengi á saman stað í félagsstörfum. Og þó ég hætti að sitja í stjórn félagsins þá er ekkert sem segir að ég geti ekki hugsað mér að koma að einhverjum verkefnum hjá félaginu.

 

Um leið og ég vil þakka samferðafólki mínu í stjórn UMFK fyrir gott og ánægjulegt samstarf, óska ég þess að nýtt fólk gefi sér tíma til að taka þátt og haldi áfram því góða starfi sem er unnið í félaginu.

 

Sigrún Jóhannsdóttir

ritari stjórnar UMFK

https://umfk.is/skjalasafn/1.%20huglei%C3%B0ingar%20ritara%20stj%C3%B3rnar%20umfk.pdf